Cristiano Ronaldo hefur fjármagnað og fyllt heila flugvél til þess að fljúga með helstu nauðsynjar á þeim svæðum í Sýrlandi og Tyrklandi sem urðu hvað verst fyrir barðinu á öflugum jarðskálftum á dögunum.
Það er Daily Mail sem greinir frá en í fréttinni segir að atburðurinn hafi markað djúp spor í daglegt líf Ronaldo sem vilji gera allt sem í hans valdi stendur til þess að hjálpa til.
Tugþúsundir einstaklinga létu lífið vegna skjálftanna, þar á meðal ganverski knattspyrnumaðurinn Christian Atsu.
Ronaldo hefur greitt fyrir tjöld, matarpakka, kodda, teppi, rúm, barnamat, mjólk og sjúkravörur sem verður flogið með á þau svæði sem urðu hvað mest fyrir barðinu á jarðskjálftunum.
Vonir standa til að framtak Ronaldo verði til þess að fleira vel sett íþróttafólk leggi sitt af mörkum til þess að hjálpa þeim sem búa við bág kjör á svæðinu og hafa jafnvel misst ástvin.
Fyrr í dag greindum við frá því að Ronaldo hefði hjálpað til við að láta draum tíu ára stráks frá Sýrlandi, sem hafði misst föður sin í skjálftunum, rætast.