Íslenski landsliðsmaðurinn Jón Dagur Þorsteinsson og liðsfélagar hans í OH Leuven í belgísku úrvalsdeildinni unnu kærkominn sigur í gær gegn Zulte Waregem.
Leikurinn fór fram á heimavelli OH Leuven og lauk með 4-2 sigri heimamanna. Jón Dagur lék á alls oddi í leiknum, skoraði tvö mörk og lagði upp eitt.
Um er að ræða fyrsta sigur OH Leuven í deildinni síðan þann 13. janúar fyrr á þessu ári en fyrir leik gærdagsins höfðu Jón Dagur og félagar farið í gegnum sjö leiki án sigurs.
OH Leuven er um miðja deild þessa dagana í 11. sæti með 36 stig þegar liðið hefur leikið 28 leiki.
Jón Dagur hefur verið á mála hjá félaginu síðan í júlí í fyrra en hann kom til OH Leuven frá AGF í Danmörku.
Þessi hæfileikaríki landsliðsmaður Íslands hefur spilað 25 leiki í belgísku úrvalsdeildinni og skorað 8 mörk.
Sjá má tilþrif Jóns Dags úr umræddum leik hér fyrir neðan:
𝘝𝘰𝘦𝘵𝘣𝘢𝘭 🟰 𝙀𝙢𝙤𝙩𝙞𝙚 ♥️#ohleuven #OHLZWA pic.twitter.com/vGl8gvXvyM
— OH Leuven (@OHLeuven) March 5, 2023