Það er ekkert laumungamál að staða knattspyrnustjórans David Moyes hjá enska úrvalsdeildarfélaginu West Ham United er mjög völt. West Ham steinlá fyrir Brighton á útivelli í gær og situr nú í 16. sæti deildarinnar, tveimur stigum frá fallsæti.
,,Þú veist ekki hvað þú ert að gera,“ mátti heyra stuðningsmenn West Ham United syngja til David Moyes í þann mund sem liðið lenti fjórum mörkum undir gegn Brighton í gær.
Leikmenn West Ham fengu að heyra það frá stuðningsmönnum sínum sem bauluðu bæði á þá þegar flautað var til hálfleiks sem og þegar flautað var til leiksloka.
The Athletic hefur greint frá því að stjórn West Ham standi þétt við bakið á stjóra sínum sem hefur þó misst traustið sem hann hafði frá stórum hópi stuðningsmanna félagsins.
,,Við brugðust sjálfum okkur,“ sagði Moyes í viðtali eftir leik gærdagsins. ,,Þetta er án efa ein verstu úrslit sem ég hef upplifað sem knattspyrnustjóri hér og líklegast ein versta frammistaða sem mitt lið hefur sýnt.“
Hann segist skilja stuðningsmennina sem lýstu yfir óánægju sinni á meðan á leik stóð.
,,Stuðningsmennirnir hafa verið að horfa á mjög gott lið undanfarin þrú ár, lið sem hefur verið að enda í 6. og 7. sæti í ensku úrvalsdeildinni, lið sem hefur komist í undanúrslit í Evrópukeppni, lið sem endaði í efsta sæti í sínum riðli í Evrópukeppni aftur.
Ég skil því vel að það sé erfitt að koma hingað til Brighton í daga og þurfa að horfa upp á þessa frammistöðu. Ég vona þó að stuðningsmennirnir hafi þó séð það mikið af góðum hlutum undanfarin ár að það búi enn von í brjósti þeirra.“