Portúgalska knattspyrnugoðsögnin Cristiano Ronaldo hjálpaði til við að láta draum 10 ára sýrlensks stráks rætast á dögunum. Hinn 10 ára gamli Nabil Saeed missti föður sinn í jarðskjálftunum sem gengu yfir Sýrland og Tyrkland á dögunum.
Þegar björgunaraðgerðir stóðu yfir í Sýrlandi, þar sem faðir Nabil lét lífið í kjölfar jarðskjálftanna miklu, sagði Nabil björgunarmanni frá því að draumur sinn væri að sjá leik með Cristiano Ronaldo sem er af mörgum talinn besti knattspyrnumaður sögunnar.
Svo fór að saga Nabil barst alla leið til Sádi-Arabíu, nánar tiltekið til forseta Al-Nassr, félagsliðs Ronaldo.
Ákveðið var að bjóða Nabil að koma og horfa á leik með Al-Nassr og varpa myndbönd, sem farið hafa í dreifingu á samfélagsmiðlum, ljósi á það hversu miklu máli það skipti fyrir Nabil að fá tækifæri til þess að upplifa draum sinn.
Hjá Al-Nassr fékk hann meðal annars að hitta Ronaldo og gerðist hann meira segja svo hugaður að taka einkennis fagn knattspyrnugoðsagnarinnar fyrir framan hann.
Myndbandið af þessari hjartnæmu stund má sjá hér fyrir neðan:
📹Cristiano Ronaldo grants wish of Syrian boy who lost father in the Turkey-Syria earthquakehttps://t.co/LzjV4JsJPk@Cristiano #Ronaldo @PSG_English #syriaearthquake pic.twitter.com/Bjrovrm4Xl
— Khaleej Times (@khaleejtimes) March 4, 2023