Liverpool valtaði yfir erkifjendur sína í Manchester United í stórleik dagsins í ensku úrvalsdeildinni. Lokatölur á Anfield í Liverpool, 7-0.
Það var Hollendingurinn ungi, Cody Gakpo sem kom Liverpool yfir með hnitmiðuðu og góðu skoti á 43. mínútu við mikil fagnaðarlæti viðstaddra á Anfield, heimavelli Liverpool.
Það reyndist eina mark fyrri hálfleiksins.
Heimamenn voru ekki lengir að stimpla sig inn í seinni hálfleikinn því strax á 47. mínútu barst boltinn til Darwin Nunez sem skallaði hann í netið af stuttu færi, kom Liverpool tveimur mörkum yfir og skoraði um leið sitt 7 mark á tímabilinu í ensku úrvalsdeildinni.
Það tók Liverpool svo aðeins þrjár mínútur til viðbótar til þess að gera út um leikinn. Heimamenn unnu boltann á sínum vallarhelmingi, komu boltanum fljótt út á hægri kant á Mohamed Salah sem átti sprett upp kantinn og kom boltanum síðan á Cody Gakpo sem lyfti boltanum snyrtilega yfir David de Gea í markinu.
Heimamenn voru hins vegar ekki hættir og héldu áfram að láta finna fyrir sér. Á 66. mínútu bætti Mohamed Salah við fjórða marki liðsins eftir enn eina skyndisóknina.
Niðurlæging Manchester United var fullkomnuð á 76. mínútu þegar að Darwin Nunez reis hæst í teignum og skallaði boltann í netið, hans annað mark í leiknum. Staðan orðin 5-0.
Það var þó nægur tími fyrir Liverpool til þess að bæta við marki. Sjötta markið kom á 83. mínútu og það skoraði Mohamed Salah.
Varamaðurinn Roberto Firmino hóf síðan lokamánuði sína í treyju Liverpool með því að bæta við sjöunda marki Liverpool á 89. mínútu.
Fleiri mörk voru ekki skoruð í leiknum. Sigur Liverpool lyftir þeim upp í 5. sæti ensku úrvalsdeildarinnar þar sem liðið er með 42 stig, þremur stigum á eftir Tottenham sem situr í 4. sæti.
Manchester United er síðan í 3. sæti með 49 stig.