Nú, aðeins 18 ára gamall, er Alejandro Garnacho orðinn einn af mest spennandi leikmönnum Manchester United en fyrir komu hans til félagsins þurfti hann að sjá til þess að hugarfarsbreyting ætti sér stað.
Frá þessu hefur fyrrum þjálfari hans hjá unglingaliði Atletico Madrid, Jesus Adolfo Marcos, greint.
Jesus var þá þjálfari undir 19 ára liðs Atletico Madrid og það var hann sem tók þá ákvörðun að láta Garnacho æfa með leikmönnum þremur árum yngri en hann sjálfur. En fyrir því var ástæða.
Hæfileikar Garnacho innan vallar voru ótvíræðir en hins vegar voru uppi efasemdir varðandi hegðun hans. Garnacho var farinn að færa sig upp á skaftið í samskiptum sínum, bæði við leikmenn og þjálfara. Það þurfti að lækka í honum rostann.
,,Garnacho var „götustrákur“ frá úthverfum Getafe og nánast um leið ákváðum við að færa hann til vegna þess að hann var ekki góður nemandi,“ sagði Jesus í viðtali.
Leikmaðurinn hafi verið klárari en flestir en á sama tíma olli hann meiri vandræðum.
,,Hann var ólíkindatól og uppspretta uppþota á heimavís akademíunnar. Hann átti það til að smygla mat inn á herbergið sitt, fela símann sinn og vera svo í honum langt fram á nótt. Hann var efstur í sínum árgangi hvað varðar það að brjóta reglur.“
Garnacho hefur þó tekist að bæta ráð sitt og nú er hann einn af lykilmönnum Manchester United til lengri tíma litið.
Undir stjórn Erik ten Hag hefur hann fengið tækifæri í aðalliði Manchester United, spilað 29 leiki í öllum keppnum, skorað 4 mörk og gefið 5 stoðsendingar. Þá varð hann enskur deildarbikarmeistari með félaginu fyrir nokkrum dögum síðan.
Garnacho verður í eldlínunni með Manchester United sem heimsækir erkifjendurna í Liverpool kl 16:30 í dag.