Roy Keane, fyrrum leikmaður Manchester United og núverandi sparkspekingur Sky Sports segir að leikmenn félagsins ættu að skammast sín og best væri ef þeir létu sig hverfa í nokkra mánuði eftir 7-0 tap liðsins gegn erkifjendunum í Liverpool.
Manchester United kom inn í leik dagsins á góðri siglingu í ensku úrvalsdeildinni, sömuleiðis varð liðið á dögunum enskur bikarmeistari.
Leikmenn Liverpool, sem hafa oft á tíðum á yfirstandandi tímabili lent í basli, léku á alls oddi í dag. Manchester United sá aldrei til sólar.
Liverpool niðurlægði Manchester United á Anfield – Sækja nú fast að Meistaradeildarsæti
,,Þetta er sjokkerandi dagur,“ sagði Roy Keane á Sky Sports eftir leik. ,,Markið sem kom strax eftir hálfleikinn sá til þess að þar var leik lokið.“
Reyndari leikmenn liðsins hafi verið niðurlægðir.
,,Þeir sýndu enga leiðtogahæfni. Mörkin sem liðið fékk á sig voru sjokkerandi. Þetta er erfiður dagur fyrir Manchester United.
Guði sé lof að ég hef aldrei verið hluti af liði Manchester United sem hefur tapað með svona miklum mun.
Leikmenn voru niðurlægðir, ættu að skammast sín fyrir þessa frammistöðu. Þegar að á harðbakkann sló, hurfu þeir.“
Keane segir vanann eftir svona tapleiki að leikmenn láti sig hverfa af almannasviðinu í nokkra daga.
,,Gleymið því að láta sig hverfa í nokkra daga, ég myndi láta mig hverfa í nokkra mánuði, svo niðurlægjandi eru þessi úrslit fyrir leikmennina.“