Íslenski knattspyrnukappinn Hólmbert Aron Friðjónsson hefur heldur betur þurft að standa með sjálfum sér undanfarna mánuði þar sem hann er nú á mála hjá þýska B-deildar liðinu Holstein Kiel.
Í viðtali við Fréttablaðið fer Hólmbert yfir sviðið hjá sér en leikmaðurinn var keyptur til Holstein Kiel frá Brescia á sínum tíma.
Hjá Holstein Kiel hefur Hólmbert upplifað erfiða tíma sem komu í kjölfarið af meiðslatímabili á Ítalíu.
„Þjálfarinn sem fékk mig til Kiel fór og það kom nýr þjálfari hérna inn. Fyrsta hálfa árið mitt hérna og tímann hjá Brescia fór ég í gegnum allan skalann af meiðslum sem hægt var að ganga í gegnum á einu og hálfu ári.
Þetta var endalaust, heill heilsu í mánuð en svo meiddur í sex vikur, heill heilsu í þrjár vikur en svo meiddur í mánuð. Þjálfarinn var orðinn þreyttur á mér,“ segir Hólmbert.
Til að komast í gang ákvað Hólmbert á síðasta ári að ganga í raðir Lilleström í Noregi á láni og þar fann hann sitt gamla form.
„Það var ákveðið að fara á lán til Lilleström, þar fékk ég fjögurra mánaða undirbúningstímabil og þar komst ég algjörlega í gang. Þegar ég kom til baka til Kiel núna var þjálfarinn með sömu skoðun á mér og þegar ég var hérna áður.
Ég labbaði inn á æfingasvæðið og fann að þeir vildu losna við mig strax, ég var í betra standi en áður og setti allt í botn. Ég vann mig hægt og rólega inn í þetta, ég skoraði í æfingaleikjum og þjálfarinn fór að tala vel um mig. Þjálfarinn vildi fyrst selja mig en þarna vildi hann halda mér og sagði að ég fengi að spila,“ segir Hólmbert.
Hlutirnir horfi nú til betri vegar en viðtalið við Hólmbert í heild sinni má lesa hér.