Spennan er farin að vera áþreifanleg fyrir stórleik dagsins í ensku úrvalsdeildinni sem hefst klukkan 16:30 þegar að erkifjendurnir í Liverpool og Manchester United mætast á Anfield. Manchester United kemur inn í leikinn.
Bæði lið koma inn í leikinn á nokkuð góðu skriði í deildinni þó svo ekki dyljist neinum að staða Manchester United sé betri. Rauðu djöflarnir sitja í 3. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 49 stig.
Tíu stigum á eftir þeim má finna Liverpool í 6. sæti deildarinnar. Sigur í dag þýðir að Liverpool getur lyft sér upp í 4. sæti og blandað sér af miklum krafti í baráttuna um Meistaradeildarsæti.
Margir eru á því að Manchester United fái ekki betra tækifæri til þess að bara sigur úr býtum gegn erkifjendum sínum á hinum sögufræga Anfield en hvar mun leikurinn ráðast? Kieran Lynch, blaðamaður Daily Mail hefur tekið saman sína sýn á því.
Það er alveg ljóst í augum sparkspekingsins Gary Neville að Marcus Rashford, sá leikmaður Manchester United sem hefur verið á hvað mestu siglingunni muni reyna sækja sérstaklega mikið á Trent Alexander-Arnold, hægri-bakvörð Liverpool.
Það hafa fundist miklar brotalamir á varnarleik Liverpool á yfirstandandi tímabili, varnarmenn Liverpool munu þurfa að finna leiðir til að hafa hemil á Rashford, allir sem einn.
Darwin Nunez gekk til liðs við Liverpool fyrir yfirstandandi tímabili, sett var mikil pressa á þennan leikmann til þess að skila sínu innan vallar og það fljótt.
Gagnrýnin í garð Úrúgvæans hefur verið einum of mikil á köflum en það dylst engum að í þessum leikmanni búa miklir hæfileikar og ákveðin spenna þegar hann næra að skapa eitthvað með knettinum.
Nunez er hættulegur leikmaður sem leikmenn Manchester United verða að hafa góðar gætur á. Það eru ekki margir varnarmenn sem ná að halda í við hraða hans.
Geta Liverpool til þess að beita skyndisóknum og sækja hratt er eitthvað sem leikmenn Manchester United mega ekki vanmeta.
Það þykir líklegt að það sem muni skera úr um baráttu þessa liða sé akkúrat baráttan á miðjunni. Á meðan að miðju Liverpool hefur verið lýst sem brothættri býr á miðju Manchester United leikmaður að nafni Casemiro, sá hefur farið mikinn í aðdraganda leiksins.
Það dylst engum að þegar félagsskiptaglugginn opnar eftir yfirstandandi tímabil munu forráðamenn Liverpool þurfa að styrkja miðju sína. En í dag þarf liðið að reyna minnka þau áhrif sem Casemiro hefur á leikinn.
Yfirstandandi tímabil er það versta sem Mohamed Salah hefur upplifað í treyju Liverpool, samt sem áður hefur hann skorað 20 mörk í öllum keppnum.
Svo heppilega vill til fyrir stuðningsmenn Liverpool að Salah virðist vera að vakna almennilega til lífsins, akkúrat á réttum tíma?
Það fer hrollur um marga stuðningsmenn Manchester United er þeir heyra minnst á Salah, enda líður honum hvergi betur en þegar að hann spilar á móti Rauðu djöflunum. Salah hefur skorað tíu mörk fyrir Liverpool í leikjum sínum gegn Manchester United, meira en nokkur annar leikmaður í sögu Liverpool.