Nottingham Forest og Everton skildu jöfn í fyrri leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni í dag. Leikið var á heimavelli Forest, City Ground, og enduðu leikar 2-2.
Demarai Gray kom Everton yfir strax á 10. mínútu með marki úr vítaspyrnu.
Everton var þó ekki lengi í paradís því níu mínútum síðar hafði Brennan Johnson jafnað metin fyrir Nottingham Forest.
Þannig stóðu leikar allt þar til á 29. mínútu þegar að Abdoulaye Doucouré kom Everton yfir á nýjan leik með marki eftir stoðsendingu frá Michael Keane.
Brennan Johnson átti hins vegar eftir að redda sínum mönnum á nýjan leik, nánar tiltekið á 77. mínútu er hann skoraði sitt annað mark í leiknum og jafnaði metin fyrir Nottingham Forest.
Fleiri mörk voru ekki skoruð í leiknum og skipta liðin því með sér stigum.
Nottingham Forest situr því í 14. sæti deildarinnar með 26 stig eftir 25 leiki, fjórum stigum meira en Everton sem er í 18. sæti, sem er jafnfram fallsæti, eftir 26 leiki.