Al-Nassr, með portúgölsku knattspyrnustjörnuna Cristiano Ronaldo í fararbroddi, vann á dögunum 3-1 sigur gegn Al-Batin í sádi-arabísku úrvalsdeildinni. Stigin þrjú mikilvæg í baráttu Al-Nassr um meistaratitilinn en upp hafa vaknað spurningar í kjölfar leiksins þess efnis hvort brögð séu í tafli.
Þannig slær þýski fjölmiðillinn Bild upp spurningu í fyrirsögn sinni í frétt um leikinn og spyr einfaldlega: ,,Spila þeir þar til Ronaldo vinnur?“
Þannig er nefnilegast mál með vexti að lengi vel leit út fyrir að Al-Batin væri að fara af hólmi með afar óvæntan sigur á Al-Nassr. Liðið hafði komist yfir snemma leiks en í uppbótatíma venjulegs leiktíma átti allt eftir að breytast.
Dómari leiksins ákvað að bæta 12 mínútum við venjulegan leiktíma undir lok leiks, eitthvað sem blaðamaður Mirror á erfitt með að átta sig á.
,,Lengd uppbótatímans kom mörgum að óvörum, erfitt var að koma augu á það hvar slíkar tafir hefðu komið upp í leiknum. Leikmenn Al-Batin gerðu dómara leiksins grein fyrir óánægju sinni eftir leik.“
Á þessum tólf mínútum sem dómari leiksins bætti við, náðu leikmenn Al-Nassr að skora þrjú mörk og fara af hólmi með 3-1 sigur.