Íslenski söngvarinn Bragi Bergsson er einn þeirra sem tekur þátt á úrslitakvöldi Söngvakeppninnar í kvöld með laginu Sometimes the World’s Against You. Bragi, sem hafði áður gert góða hluti á sviði knattspyrnunnar, er í ítarlegu viðtali við Vísi þar sem hann segist ekki útiloka endurkomu á knattspyrnuvöllinn í sumar.
Bragi hefur í gegnum tíðina haldið mikið til í Svíþjóð, þar sem hann gerði flotta hluti með sænskum félagsliðum en segja má að hann hafi vakið mesta athygli með þátttöku sinni í sænska Idolinu þar sem hann endaði í fjórða sæti.
Á meðan á Söngvakeppni Sjónvarpsins hefur staðið hefur Bragi verið að æfa með Bestu deildar liði Fylkis sem leikur undir stjórn Rúnars Páls Sigmundssonar.
Í samtali við Vísi segist Bragi ekki útiloka að spila með liðinu í sumar.
„Það er aldrei að vita hvað gerist. Ég ætla aldrei að segja aldrei. Það gæti gerst. Ég veit það ekki. Núna er einbeitingin á Söngvakeppnina og svo sjáum við hvað gerist.“
Bragi er miðjumaður að upplagi, Hann gekk til liðs við ÍBV árið 2015 og var á mála hjá félaginu allt þar til árið 2015 þegar að hann gekk til liðs við sænska félagið GAIS.
Rúmu ári seinna sneri hann síðan aftur heim til Íslands og gekk í raðir Fylkis.
Árið 2017 sneri hann síðan aftur til Svíþjóðar og reyndi fyrir sér hjá liðum á borð við IK Oddevold, Utsiktens BK og Vastra Frolunda.
Bragi á að baki 36 leiki í efstu deild hér á Íslandi og í þeim leikjum hefur hann skorað þrjú mörk.