Sandra Sigurðardóttir, fyrrum landsliðsmarkvörður í knattspyrnu hefur lagt markmannshanskana á hilluna. Sandra, sem er á meðal bestu landsliðsmarkvarða Íslandssögunnar bindur þar með enda á sinn magnaða feril en hún á að baki marga titla og er leikjahæsti leikmaðurinn í sögu efstu deildar á Íslandi.
Í viðtali við RÚV varpar Sandra ljósi á ákvörðun sína sem á sér sinn aðdraganda.
Sandra viðurkennir að hafa hugsað um að hætta knattspyrnuiðkun áður, vendipunkturinn í þessum málum hafi komið á síðasta ári.
,,Seinasta ár var rússíbani, eins og hefur komið fram. Það er vendipunktur þarna í október þegar við erum dottnir út, og ekki á leiðinni á HM. Ég viðurkenni það,“ segir Sandra í viðtali við RÚV.
Áfallið, sem var að missa af sæti á HM, varð til þess að Sandra fór að hugsa hvort tímapunkturinn væri kominn.
,,En, vá, ég er búinn að hugsa þetta allt saman fram og til baka, hægri til vinstri, út og suður og á nóttinni líka,“ segir fyrrum landsliðsmarkvörðurinn Sandra Sigurðardóttir í samtali við RÚV.