Málefni enska úrvalsdeildarfélagsins Chelsea eru í deiglunni hjá The Telegraph í dag en miðillinn heldur því fram að allt að fjórtán leikmenn gætu yfirgefið herbúðir félagsins eftir yfirstandandi tímabil.
Hreinsanirnar yrðu að frumkvæði Todd Boehly, eins af eigendum Chelsea en Telegraph heldur því fram að hann muni losa sig við alla þá leikmenn sem muni ekki vilja skrifa undir minnst tveggja ára samning.
Chelsea hefur eytt yfir 500 milljónum punda í nýja leikmenn undanfarna tvo félagsskiptaglugga, leikmannahópurinn er nú breiður en þrátt fyrir miklar fjárfestingar í nýjum leikmönnum hafa úrslitin látið á sér standa.
Chelsea situr um miðja deild og knattspyrnustjóri félagsins, Graham Potter, sem var ráðinn inn í september á síðasta ári, er undir mikilli pressu.
Forráðamenn Chelsea vilja forðast það eins og heitan eldinn að leikmenn eigi aðeins tólf mánuði eða minna eftir af núverandi samningi sínum og eiga þar með hættu á því að missa þá frá sér á frjálsri sölu.
Þá eru, samkvæmt Telegraph, uppi vangaveltur meðal forráðamanna félagsins að losa leikmenn sem eiga tvö eða færri ár eftir af samningi sínum.
Allt í allt gætu um fjórtán leikmenn yfirgefið herbúðir félagsins á næstunni, leikmenn á borð við:
Mateo Kovacic, Mason Mount, Christian Pulisic, Ruben Loftus-Cheek, Pierre-Emerick Aubameyang, César Azpilicueta og Thiago Silva.
Ofangreindir leikmenn eru allir á samningi sem rennur út sumarið 2024 og gætu fengið sparkið í sumar neiti þeir að skrifa undir framlengingu á sínum samningi.
Félagið myndi þá heldur vilja fá vænan aur fyrir þá fremur en að missa þá frá sér á frjálsri sölu.