Manchester City vann sigur á Newcastle United í fyrsta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni. Lokatölur 2-0 sigur Manchester City.
Leikið var á Etihad leikvanginum, heimavelli Manchester City og ekki þurfti að bíða lengi eftir fyrsta marki leiksins.
Það kom á fyrsta stundarfjórðungi hans og var þar að verki Phil Foden sem skoraði eftir stoðsendingu frá Rodri.
Þetta reyndist eina mark fyrri hálfleiksins.
Í seinni hálfleik náðu leikmenn Manchester City að tvöfalda forystu liðsins. Á 67. mínútu bætti Bernardo Silva við öðru marki leiksins eftir stoðsendingu frá Erling Braut Haaland.
Fleiri urðu mörkin ekki og fór Manchester City því af hólmi með 2-0 sigur og þrjú stig í farteskinu.
Úrslitin þýða að Manchester City nær, að minnsta kosti um stundarsakir, að brúa bilið í topplið Arsenal niður í tvö stig. Arsenal mætir Bournemouth núna klukkan 15:00.
Newcastle United situr hins vegar í 5. sæti deildarinnar með 31 stig og gæti átt á hættu að falla niður í 6. sæti vinni Liverpool sinn leik gegn Manchester United á morgun.