Rio Ferdinand, fyrrum atvinnu- og landsliðsmaður í knattspyrnu, hvetur samlanda sinn, hinn unga of efnilega Jude Bellingham til þess að ganga í raðir Manchester United fram yfir Liverpool í sumar.
Bellingham hefur skotist upp á sjónarsviðið með þýska úrvalsdeildarfélaginu Borussia Dortmund undanfarið og þá var hann einn af bestu leikmönnum enska landsliðsins á HM í Katar undir lok síðasta árs.
Bellingham er aðeins 19 ára gamall en hefur nú þegar skipað sér sess meðal mest spennandi miðjumanna knattspyrnuheimsins. Búist er við því að hann yfirgefi herbúðir Dortmund eftir yfirstandandi tímabil.
Ferdinand er, sem fyrrum leikmaður Manchester United, ekki hlutlaus í sínu mati en í samtali við BBC sagði hann frá því af hverju hann teldi Manchester United betri áfangastað fyrir Bellingham heldur en Liverpool.
,,Ef þú berð þessi tvö lið saman þá sérðu að Manchester United er að fara í eina ákveðna átt á meðan að Liverpool hefur staðnað.“
Ef hann væri þessi ákveðni leikmaður og þyrfti að velja um Manchester United eða Liverpool þá myndi hann velja fyrrnefnda liðið.
,,Gleymið tengslum mínum við Manchester United en ég myndi velja United. Sjáið hvernig liðið lítur út núna, hvernig leikmannahópurinn er að mótast.
Berið síðan saman hvernig knattspyrnustjórarnir eru að lýsa leiðina fram á við og metið hvort liðið verður sigursælla í nánustu framtíð. Ég myndi sitja Manchester United megin.“