Todd Boehly, eigandi Chelsea, er nú að skoða það að kaupa annað knattspyrnufélag og er það staðsett í Frakklandi.
Boehly eignaðist Chelsea á síðasta ári en hann tók við keflinu af Roman Abramovich sem hafði átt félagið frá 2003.
Boehly er að komast inn í fótboltann í fyrsta sinn og hefur fundað með eiganda Strasbourg í Frakklandi.
Strasbourg leikur í efstu deild og er Boehly með áform um að lána leikmenn frá Chelsea þangað svo þeir geti þróað sinn leik.
Það er ekki ósvipað og Chelsea gerði á sínum tíma með Vitesse í Hollandi en þeir hollensku fengu fjölmarga leikmenn lánaða frá stórliðinu.