Það kom upp fremur furðulegt atvik í hollenska boltanum í gær. Þá mættust Twente og Feyenoord í stórleik í úrvalsdeildinni.
Leiknum lauk með 1-1 jafntefli. Santiago Tomas Gimenez kom Feyenoord yfir eftir hálftíma leik en Joshua Brenet jafnaði fyrir Twente á 68. mínútu.
Það var í stöðunni 0-1 sem Virgil Misidjan hjá Twente brjálaðist út í markvörð andstæðingsins, Justin Bijlow.
Bijlow hafði þá komið langt út úr marki sínu til að hreinsa boltann í innkast. Misidjan reyndi að taka það hratt þar sem markvörðurinn var ekki í markinu.
Þá kastaði Bijlow hins vegar öðrum bolta inn á völlinn þar sem hann stóð út við hliðarlínu. Varð það til þess að stöðva þurfti leikinn og Twente gat ekki nýtt stöðuna.
Misidjan var ansi ósáttur og grýtti bolta í Bijlow. Sá síðarnefndi fékk gult spjald fyrir athæfi sitt.
Eftir úrslitin er Feyenoord áfram á toppi deildarinnar með 42 stig, tveggja stiga forskot á AZ. Twente er í fimmta sæti með 36 stig.
Þess má geta að Alfons Sampsted er á mála hjá Twente og kom inn á sem varamaður í lok leiks.
Gewoon een hele slimme actie van Bijlow, maar is het niet gewoon het ontnemen van een levensgrote kans ? #twefey pic.twitter.com/EB3hPY0gHx
— Jordi Beeksma (@jordibeeksma) January 29, 2023