Chelsea hefur lagt fram 105 milljóna punda tilboð í Enzo Fernandez hjá Benfica. Telegraph segir frá.
Chelsea hefur verið á höttunum á eftir Fernandez, sem heillaði með heimsmeistaraliði Argentínu á HM í Katar, í nokkrar vikur.
Hingað til hefur tilboðum upp á 60 og 88 milljónir punda verið hafnað.
Nú virðast málin vera að þokast í rétta átt. Samþykki Benfica 105 milljóna punda tilboðið yrði það met í Bretlandi.
Todd Boehly hefur dælt hátt í 500 milljónum punda í félagið frá því hann keypti félagið í sumar og virðist hvergi nærri hættur.
Félagaskiptaglugginn lokar annað kvöld.