Það gæti komið mörgum á óvart að Napoli hefur ekki fengið eitt einasta tilboð í vængmanninn Khvicha Kvaratskhelia.
Þetta staðfestir umboðsmaður leikmannsins en Kvaratskhelia er einn eftirsóttasti leikmaður Evrópu.
Kvaratskhelia hefur vakið gríðarlega athygli með Napoli á tímabilinu og hefur skorað níu mörk og lagt upp önnur 10 í 20 leikjum.
Stórlið á Englandi, Ítalíu og á Spáni hafa horft til Kvaratskhelia sem kemur frá Georgíu.
Ekkert tilboð hefur þó borist hingað til en Kvaratskhelia er aðeins 21 árs gamall og gæti reynt að þróa leik sinn til lengri tíma hjá Napoli.
,,Ég er ekki með neina pappíra á mínu borði og það sama má segja um Napoli og þeirra skrifstofu,“ sagði umboðsmaðurinn.