Íslenski landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson var í byrjunarliði Al-Arabi og spilaði allan leikinn í 2-0 tapi liðsins gegn Al-Sadd í katörsku úrvalsdeildinni í kvöld.
Sigur hefði komið Al-Arabi á toppinn í katörsku úrvalsdeildinni en gæfan reyndist ekki með liðinu í kvöld.
Það var fyrrum leikmaður Arsenal, miðjumaðurinn Santi Cazorla sem kom Al-Sadd yfir í kvöld með marki úr vítaspyrnu á 66. mínútu eftir að Aron Einar hafði gerst brotlegur innan teigs. Aron fékk boltann í hendi sína og eftir að hafa skoðað atvikið í VAR-sjánni staðfesti dómari leiksins vítaspyrnudóm sinn.
Lýsendur leiksins á Seven HD sjónvarpsstöðinni voru sammála um að um afar strangan dóm væri að ræða.
Aðeins sex mínútum eftir fyrsta markið tvöfaldaði Hassan Al Heidos forystu Al-Sadd og reyndist það lokamark leiksins.
Al-Arabi situr sem stendur í 2. sæti katörsku úrvalsdeildarinnar með 22 stig eftir tíu umferðir, einu stigi á eftir Al-Duhail sem vann sinn leik gegn Al-Shamal í dag.
Vítaspyrnudóminn og mark Cazorla má sjá hér fyrir neðan:
🇶🇦QNB Stars League | Week 10🏆
GOAL 67′
Al Arabi 0⃣-1⃣ Al Sadd
SCORER: Santi Cazorla (P)#QSL #QNBStarsLeague #Qatar pic.twitter.com/TCCewK4zn9— Alkass Digital (@alkass_digital) January 23, 2023