Roy Keane, fyrrum leikmaður Manchester United tók til varna fyrir Mikel Arteta, knattspyrnustjóra Arsenal eftir leik liðsins gegn Manchester United í gær. Arteta hefur það orð á sér að vera ansi líflegur á hliðarlínunni í leikjum Arsenal, stundum helst til of líflegur að mati sumra og í gær fékk hann að líta gula spjaldið fyrir hegðun sína.
Í útsendingu Sky Sports í gær var Keane, þekktur harðhaus í leiknum, spurður út í hegðun Arteta og hvað honum fyndist um hana.
„Frá sjónarhóli Arsenal yrði ég sáttur með þetta vegna þess að hefur auðsjáanlega ástríðu fyrir því sem hann er að gera, þú ert ekki í þessu starfi til þess að afla þér vinsældir. Hann er þarna til þess að vinna knattspyrnuleiki fyrir Arsenal og það er nákvæmlega það sem hann er að gera. Hann fékk gult spjald, þarf að taka lyfin sín en á heildina litið sé ég ekkert athugavert við þetta.“
Gagrýni á stjóra sem að sýni smá ástríðu á hliðarlínunni megi ekki verða of mikil.
Hvað Arsenal varðar telur Roy Keane að það þurfi eitthvað mikið til þess að stöðva skriðið sem liðið er komið á.
„Þetta var pressuleikur fyrir þá á móti Manchester United og þeir tókust vel á við hann. Þeir eiga góðan möguleika á því að vinna deildina.“
Arsenal hafði betur gegn Manchester United í gær, 3-2 og situr nú á toppi ensku úrvalsdeildarinnr með fimm stiga forskot og leik til góða á Manchester City.