Það er útlit fyrir það að Leandro Trossard sé búinn að spila sinn síðasta leik fyrir Brighton og sé á förum í janúar.
Chelsea ku hafa áhuga á Trossard sem nær alls ekki saman við Roberto De Zerbi, stjóra Brighton, en hann tók við fyrr í vetur.
De Zerbi staðfesti erfiðleikana á blaðamannafundi og segir að Trossard hafi sýnt sér vanvirðingu með sinni hegðun.
,,Hann yfirgaf æfinguna án þess að segja nokkuð við mig og það er ekki gott,“ sagði De Zerbi.
,,Ég ræddi við hann um hegðunina og ég er ekki hrifinn af henni. Ég er opinn fyrir því að taka skref til baka og ræða við hann og hlusta en hann verður að skilja mig.“
,,Ég vil bara leikmenn sem spila 100 prósent fyrir liðið. Ég veit ekki hvort hann vilji skipta um lið eða ekki.“
Umboðsskrifstofa Trossard hefur einnig tjáð sig og segir leikmanninn vera tilbúinn að taka næsta skrefið á ferlinum.