Það gengur einfaldlega ekkert hjá liði Chelsea þessa dagana sem er á leið niður töfluna í ensku úrvalsdeildinni.
Chelsea tapaði 2-1 gegn Fulham í deildinni í gær þar sem liðið endaði með tíu menn á vellinum.
Joao Felix er kominn í þriggja leikja bann eftir sinn fyrsta leik fyrir félagið en hann fékk beint rautt spjald í seinni hálfleik.
Ekki nóg með það er annar leikmaður kominn á meiðslalista liðsins, miðjumaðurinn Denis Zakaria.
Leikmenn eins og Armando Broja, Ben Chilwell, Wesley Fofana, Reece James, N’Golo Kante, Edouard Mendy, Raheem Sterling og Christian Pulisic eru allir frá.
Það er vonandi fyrir Chelsea að meiðsli Zakaria séu ekki alvarleg en liðið gæti þurft að treysta á ungstirni í næstu leikjum.