Skákmót Blush í samstarfi við hlaðvarpsþáttinn Chess after Dark fór fram á Dalvegi í gær en margt var um manninn. Gerður Huld Arinbjarnardóttir, eigandi Blush, setti mótið og síðan fékk skákstjórinn mótsins, Róbert Lagerman, orðið. Hann fór stuttlega yfir reglur og sagðist svo vona að mótið myndi ganga smurt. Gall þá í Gerði að nóg væri til af sleipiefni í búðinni og uppskar hún mikil hlátrasköll.
Athygli vakti að Heimir Guðjónsson fyrrum þjálfari Vals var mættur að tefla og með í för var vinur hans, Hörður Magnússon.
Heimir var rekinn úr starfi sem þjálfari Vals í sumar en Hörður starfar í dag hjá Viaplay.
Heimir og Hörður áttu fína spretti á mótinu samkvæmt heimildarmönnum en náði ekki í verðlaunasæti. Sigurvegari mótsins var ungstirnið Vignir Vatnar Stefánsson, næsta stórmeistaraefni Íslands, og í öðru sæti varð stórmeistarinn Hjörvar Steinn Grétarsson, Björn Þorfinnsson ritstjóri DV endaði í þriðja sæti mótsins.
Eins og aðrir verðlaunahafar fór ritstjórinn heim með gnægð smokka, titrara og gjafabréf í verslunina.