Íslenska U-21 árs landsliðið tapaði fyrri leik sínum gegn Tékklandi í umspili um sæti á EM á næsta ári. Leikið var í Víkinni.
Það voru gestirnir sem fengu fyrsta álitlega færið á sjöttu mínútu. Kom það í kjölfar misskilnings miðvarða Íslands. Danek setti hann þó yfir úr góðri stöðu.
Í kjölfarið átti íslenska liðið ágætis kafla. Liðið hélt boltanum vel og miðjumennirnir Andri Fannar Baldursson og Kolbeinn Þórðarson bjuggu til álitlegar stöður fyrir liðsfélaga sína í fremstu víglínu. Það vantaði þó upp á að opna tékkneska liðið að viti.
Á 25. mínútu dró þó til tíðinda. Sævar Atli Magnússon vann þá boltann á vallarhelmigi Tékka, tók á rás og skaut svo í hönd leikmanns gestanna. Dómarinn benti á punktinn og dæmdi víti. Sævar fór sjálfur á punktinn og skoraði af öryggi.
Íslenska liðið efldist frekar við markið og átti góða sókn skömmu síðar, þar sem Ísak Snær Þorvaldsson skaut yfir.
Tékkar jöfnuðu hins vegar á 34. mínútu. Matej Valenta skoraði þá, en það má setja spurningamerki við varnarleik Íslands í markinu.
Í kjölfarið voru gestirnir betri og fengu annan séns til að skora áður en fyrri hálfleik lauk.
Staðan í hálfleik var fremur sanngjarnt jöfn.
Það gerðist lítið markvert í seinni hálfleik framan af.
Vaclav Sejk kom gestunum hins vegar yfir á 69. mínútu. Þá skoraði hann með skalla eftir fyrirgjöf Adam Gabriel.
Íslenska liðið reyndi að finna jöfnunarmarkið en náði ekki að opna vörn Tékklands almennilega. Lokatölur 1-2.
Seinni leikurinn fer fram í Tékklandi á þriðjudag.