Mál Gylfa Þórs Sigurðssonar er enn til rannsóknar hjá lögreglu í Bretlandi. Fjórtán mánuðir eru liðnir frá handtöku kappans, en hann var settur í farbann í kjölfarið. Það var svo ítrekað framlengt, þar til í sumar.
Fréttastofa RÚV sendi fyrirspurn til lögreglunnar í Manchester en fékk þau svör að hún myndi aðeins tjá sig um málið þegar ljóst er hvort ákæra verði gefin út á hendur Gylfa eða málið látið niður falla.
Lögreglan hefur ekkert viljað gefa upp við fjölmiðla frá því trygging Gylfa átti að renna út í júlí.
Samkvæmt nýjum tíðindum og svari lögreglunnar við fyrirspurn RÚV er mál Gylfa því enn á borði lögreglu. Í svarinu er ekki tekið fram hvort leikmaðurinn sé enn í farbanni eða ekki.
Gylfi er samningslaus eftir að samningur hans við enska úrvalsdeildarfélagið Everton rann út í sumar.
Hann sást opinberlega í fyrsta sinn í eitt ár er hann fylgdist með íslenska kvennalandsliðinu á EM í Englandi.