Heimir Hallgrímsson, fyrrum landsliðsþjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu er sagður vera að taka við landsliði Jamaíka. Þetta fullyrðir einn fjölmiðillinn í Jamaíka, Jamaica Gleaner.
Heimir var síðast þjálfari katarska félagsins Al-Arabi en hann yfirgaf liðið á síðasta ári og hefur undanfarið verið ráðgjafi Hermanns Hreiðarssonar hjá ÍBV í Bestu deild karla.
Rudolph Speid, yfirmaður knattspyrnumála hjá knattspyrnusambandi Jamaíka sagði í samtali við Jamaica Gleaner að samkomulag hefði náðst við nýjan landsliðsþjálfara fyrir landslið Jamaíka en hann vildi ekki staðfesta um hvaða þjálfara væri að ræða.
Jamaíka er í 62. sæti á styrkleikalista FIFA, einu sæti fyrir ofan Ísland.