Það er lokadagur félagaskiptagluggans í dag en það stefnir ekki í að Cristiano Ronaldo færi sig um set.
Portúgalinn hefur verið orðaður frá Manchester United í allt sumar. Hann vill spila í Meistaradeild Evrópu, sem er eitthvað sem United getur ekki boðið honum eftir slakt síðasta tímabil.
Ronaldo virðist þó ekki ætla að ná því í gegn að fara frá Old Trafford, ef marka má nýjustu orð Erik ten Hag, stjóra United.
„Frá byrjun sögðum við að Cristiano væri í áætlunum okkar, það var alveg á hreinu. Við erum á sömu blaðsíðu,“ segir Ten Hag.
„Við erum ánægð með hann og hann er ánægður hér. Vil viljum ná árangri saman á þessari leiktíð.“
Eftir að hafa tapað fyrstu tveimur leikjum tímabilsins gegn Brighton og Brentford hefur United unnið síðustu tvo leiki sína, gegn Liverpool og Southampton.