Það stefnir allt í það að Pierre Emerick Aubameyang verði leikmaður Chelsea í dag, áður en félagaskiptaglugganum verður skellt í lás.
Gabonmaðurinn er á mála hjá Barcelona, en hann kom til félagsins í janúar.
Talið er að Barcelona og Chelsea séu að ná saman um kaupverð. Eru þó ekki allir sammála um hversu hátt það er. David Ornstein segir kaupverðið 6,5 milljónir punda en Fabrizio Romano segir það yfir 10 milljónir punda.
Báðir eru þó sammála um að Marcos Alonso fari til Barcelona sem hluti af kaupverðinu.
Í Aubameyang er Chelsea að fá leikmann með mikla reynslu úr ensku úrvalsdeildinni. Sóknarmaðurinn lék með Arsenal í fjögur ár, frá janúar 2018 og þar til í janúar á þessu ári, þegar hann fór til Barcelona.