Nú fer fram fyrsti dagur réttarhalda yfir knattspyrnumanninum Benjamin Mendy. Mendy, sem er á mála hjá enska knattspyrnufélaginu Manchester City, er sakaður um átta nauðganir, eitt kynferðisbrot og eina tilraun til nauðgunar. Atvikin eiga að hafa átt sér stað frá október 2018 til ágúst 2021.
Hinn 28 ára gamli Mendy var handtekinn í ágúst í fyrra. Hann hefur verið laus gegn tryggingu frá því í janúar á þessu ári. Hann neitar alfarið sök.
Einnig er réttað yfir vini Mendy, Louis Saha Matturie. Sá er sakaður um átta nauðganir og fjögur kynferðisbrot. Alls eru þrettán konur sem tengjast brotum þeirra félaga.
Saksóknarinn Timothy Gray opnaði réttarhöldinn í dag. „Málið er einfalt. Þetta hefur lítið með knattspyrnu að gera. Það má segja að þetta sé nýr kafli í mjög gamalli sögu: Menn nauðga og brjóta kynferðislega á konum þar sem þeir telja sig hafa völd og halda að þeir geti komist upp með það.“
„Fyrir þeim eru konur hlutir sem á að nota fyrir kynlíf og svo kasta frá sér. Svoleiðis var ásetningur sakborninga, þetta létu þeir eftir sér marg oft.“
Cray segir að þar sem Mendy sé nokkuð frægur knattspyrnumaður hafi ákveðnir aðilar verið til í að hjálpa honum að fá sínu framgengt. Hann segir Saha hafa hjálpað Mendy að „finna ungar konur og að búa til aðstæður þar sem hægt væri að nauðga þeim og brjóta á þeim.“
„Hvernig sakborningar komu fram við þessar konur gerir þá að skrímslum sem voru tilbúin að fremja alvarlega kynferðisglæpi,“ heldur Cray áfram.
„Það að þeir hafi ekki tekið nei sem svari er eitthvað sem þið munuð heyra oft. Berskjaldaðar, hræddar og einangraðar er eitthvað sem þið munuð oft heyra.“
Kviðdómur fékk einnig að heyra að símar fórnarlamba hafi verið teknir af þeim er þær komu á heimili Mendy og Saha. Einhverjar þeirra telja sig hafa verið læstar inni í herbergjum þar.
Hugsanlegt er að fimm leikmenn sem léku með Mendy hjá City beri vitni í málinu. Þða eru þeir Raheem Sterling, Kyle Walker, John Stones, Riyad Mahrez og Jack Grealish.
Mendy gekk í raðir City frá Monaco árið 2017 fyrir 52 milljónir punda.
Þá var vinstri bakvörðurinn hluti af landsliði Frakka sem varð heimsmeistari í Rússlandi árið 2018.