Samkvæmt CNN í Portúgal hefur Cristano Ronaldo verið boðinn svakalegur samningur í Sádi-Arabíu.
Félagið í landinu er sagt tilbúið að bjóða hinum 37 ára gamla Ronaldo svakalegan tveggja ára samning til að klára glæstan feril sinn.
Samkvæmt fréttinni ætlar félagið að bjóða Manchester United, sem á leikmanninn, 25 milljónir punda til að fá hann til sín.
Þá myndi Jorge Mendes, umboðsmaður Ronaldo, fá 20 milljónir punda í sinn vasa.
Loks myndi portúgalski sóknarmaðurinn fá 105 milljónir fyrir hvort tímabil um sig. Það gera þá 210 milljónir punda, eða yfir 34 milljarða íslenskra króna.
Ronaldo vill komast frá Man Utd. Hann sneri aftur til félagsins í fyrra, tólf árum eftir að hann yfirgaf það fyrir Real Madrid.
Sjálfur átti Portúgalinn fínasta tímabil en Man Utd hafnaði hins vegar í sjötta sæti ensku úrvalsdeildarinnar.