Þróttur Vogum í Lengjudeild karla hefur ákveðið að reka Eið Benedikt Eiríksson úr starfi þjálfara. Þetta hefur 433.is fengið staðfest.
Ákvörðun Þróttar vekur mikla athygli en nýliðarnir eru aðeins búnir með fjóra leiki í næst efstu deild.
Þróttur er með eitt stig eftir fjóra leiki en viðbúið var að tímabilið yrði erfitt, liðið er þó aðeins einu stigi frá öruggu sæti.
Þróttur er í fríi næstu daga vegna landsleikja hjá leikmönnum og ákvað stjórn félagsins að skipta út þjálfara sínum.
Eiður Benedikt tók við Þrótti í vetur eftir að hafa verið aðstoðarþjálfari hjá Val í Bestu deild kvenna. Eiður tók við liðinu af Hermanni Hreiðarssyni sem kom liðinu upp í Lengudeildina.