Eftir að fjöldi stuðningsmanna Everton hlupu inn á í leikslok eftir að liðið tryggði veru sína í ensku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð með sigri á Crystal Palace í gær ákvað deildin að halda neyðarfund þar sem þetta vandamál var rætt.
Einn áhorfandi átti til að mynda í útistöðum við Patrick Vieira, stjóra Palace, eftir leik í gær sem endaði með því að fyrrum miðjumaðurinn sparkaði hann niður.
Úrvalsdeildin vill nú að félög verði með öryggisverði á sínum vegum sem eru sérþjálfaðir í að takast á við það þegar fólk hleypur inn á völlinn. Þá eiga félögin einnig að sjá til þess að öryggisverðir séu í búnaði sem hentar fyrir hverjar aðstæður fyrir sig.
Að áhorfendur hlaupi inn á völlinn er þekkt vandamál í neðri deildum Englands. Einn stuðningsmaður Nottingham Forest skallaði til að mynda Billy Sharp, leikmann Sheffield United, eftir sigur Forest á Sharp og félögum í undanúrslitum umspilsins í B-deildinni eftir að hafa hlaupið inn á völlinn í leikslok ásamt fjölda manns.