Carlo Nicolini, yfirmaður íþróttamála hjá Shakhtar Donetsk, hefur tjáð sig um tilboð Arsenal í Mykhailo Mudryk.
Talið er að tilboð Arsenal í þennan 21 árs gamla kantmann hafi getað náð upp í 60 milljónir evra, en að 40 milljónir hefðu farið strax til Shakhtar. Þessu hafnaði úkraínska félagið.
„Leikmenn sem eru ekkert betri en Mudryk hafa verið seldir á um 100 milljónir evra svo 60 milljónir eru ekki nóg,“ segir Nicolini.
Hann á þarna við leikmenn á borð við Jack Grealish og Antony, sem fóru til félaga sinna, Manchester City og Manchester United, á himinnháar fjárhæðir.
„Það þarf tilboð nær því sem Grealish og Antony fóru á. Þegar fyrsta greiðsla er 40 milljónir evra íhugum við það ekki einu sinni,“ segir Nicolini.
Viðræður Arsenal og Shakhtar halda nú áfram. Skytturnar ætla sér að fá leikmanninn í sínar raðir. Félagið leitar að styrkingu í sóknarlínuna. Gabriel Jesus verður frá í einhvern tíma vegna meiðsla.