Newcastle hefur áhuga á að fá Jorginho til liðs við sig frá Chelsea í sumar.
Það er Daily Mail sem segir frá þessu.
Samningur Jorginho við Chelsea rennur út í sumar og vill Newcastle bjóða honum upp á þann möguleika að vera áfram í ensku úrvalsdeildinni.
Jorginho er orðinn 31 árs gamall. Hann hefur verið á mála hjá Chelsea síðan 2018.
Newcastle hefur verið á mikilli uppleið frá því félagið fékk moldríka eigendur. Fjárfestingasjóður Sádi-Arabíu keypti félagið á miðju síðasta tímabili.
Sem stendur er Newcastle í öðru sæti ensku úrvalsdeildarinnar, sjö stigum á eftir toppliði Arsenal.