Englandsmeistarar Manchester City munu ekki kaupa neinn leikmann í janúar ef marka má orð Pep Guardiola, stjóra liðsins.
City er sem stendur í þriðja sæti ensku úrvalsdeildarinnar, átta stigum á eftir toppliði Arsenal. Liðið getur minnkað muninn í fimm stig og farið upp í annað sæti með sigri á Leeds í kvöld.
„Ég held að við kaupum ekki neinn. Ég held að við klárum janúar eins og við erum núna,“ segir Guardiola.
Stjórinn hefur talað við æðstu menn og telur að ekki sé á dagskránni að kaupa inn nýja leikmenn í janúarglugganum.
„Ég veit ekki hvað gerist en frá því ég talaði við yfirmann íþróttamála og fleiri var ekki neitt nafn á borðinu.“