Eins og flestir vita er Cody Gakpo að ganga í raðir Liverpool frá PSV. Félagið sigraði baráttuna við Manchester United um leikmanninn, en flestir höfðu talið líklegra að leikmaðurinn endaði á Old Trafford.
Enski miðillinn Mirror fór í saumana á því hvernig Liverpool klófesti leikmanninn.
Liverpool mun alls greiða PSV um 45 milljónir punda fyrir þjónustu hins 23 ára gamla Gakpo. Félagið var tilbúið að greiða meira en United í fyrstu greiðslu, en Liverpool greiðir PSV 37 milljónir punda strax og á svo restin eftir að bætast ofan á.
Þegar æðstu menn hjá United heyrðu af þessum áformum Liverpool sættu þeir sig við að stríðið væri tapað og að Gakpo færi á Anfield, þrátt fyrir að sóknarmaðurinn, sem getur leyst allar stöður fremst á vellinum, hafi verið helsta skotmark Erik ten Hag, stjóra United, fyrir janúargluggann.
Þá hjálpaði það Liverpool mikið að sjálfur Jurgen Klopp setti mikið í að fá Gakpo til félagsins. Vinna United fór meira fram hjá stjórnarmönnum.
Loks á Virgil van Dijk, miðvörður Liverpool, að hafa hjálpað til. Hann er liðsfélagi Gakpo hjá hollenska landsliðinu, þar sem sóknarmaðurinn fór á kostum.
Tölfræði Gakpo í hollensku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð er hreint ótrúleg. Hann hefur skorað níu mörk og lagt upp tólf í fjórtán leikjum.