Stjórn Knattspyrnusambands Íslands samþykkti á fundi sínum þann 8. desember síðastliðinn tillögu Vöndu Sigurgeirsdóttur formanns sambandsins um að starfsmenn þess fengju því sem nemur 200 þúsund krónum í launauppbót vegna álags í kringum Evrópumótið í sumar.
Þetta kemur fram í fundargerð KSÍ frá fundi stjórnar þann 8. desember. Fundargerðin var birt fyrir helgi. Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu tók þátt á Evrópumótinu í knattspyrnu síðasta sumar.
„Samþykkt var tillaga Vöndu Sigurgeirsdóttur formanns að greiða starfsmönnum kr. 200.000.- launauppbót vegna EM álags í samræmi við fyrri fordæmi og þegar ráðrúm er til,“ segir í fundargerðinni en líkt og segir þar eru fordæmi fyrir slíkri launauppbót hjá KSÍ.
Það var til dæmis gert árið 2016 eftir þátttöku íslenska karlalandsliðsins á Evrópumótinu í knattspyrnu. Þá var uppbótin sögð samsvara mánaðarlaunum hvers starfsmanns.