Það var í raun Paul Pogba að kenna að Marko Arnautovic gekk ekki í raðir Manchester United árið 2016.
Þetta segir Arnautovic sjálfur en Jose Mourinho, stjóri Man Utd, á þessum tíma vildi fá sóknarmanninn til liðsins frá West Ham.
Arnautovic hefði kostað dágóða upphæð á þessum tíma en hann er 33 ára gamall í dag og leikur með Bologna á Ítalíu.
Man Utd skoðaði meira að segja að fá Arnautovic í sínar raðir í sumar en að lokum varð ekkert úr þeim skiptum.
Mourinho er aðdáandi austurríska landsliðsmannsins og skoðaði þann möguleika ítarlega að semja við hann árið 2016.
Það var áður en Pogba skrifaði undir á Old Trafford og kostaði liðið 90 milljónir punda frá Juventus.
,,Hann vildi fá mig til liðsins þegar ég var hjá West Ham. Hann spurði mig hvað ég myndi kosta, ég svaraði og spurði hvort hann vildi enn fá mig,“ sagði Arnautovic.
,,Hins vegar þá ákvað Manchester United að kaupa Paul Pogba og peningarnir voru ekki til staðar svo ég gæti einnig samið.“