Antonio Conte, knattspyrnustjóri Tottenham, hefur tjáð sig um áætlanir félagsins á leikmannamarkaðnum í janúar.
Tottenham er í fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 30 stig og gerði 2-2 jafntefli við Brentford í gær í fyrsta leik sínum eftir hléið sem var vegna Heimsmeistaramótsins í Katar.
„Við munum reyna að gera eitthvað en við verðum að fylgja sýn félagsins,“ segir Conte.
„Tottenham vill fjárfesta í ungum leikmönnum, eins og við gerðum með Kulusevksi og Bentancur.“
Conte segir að leikmenn megi ekki kosta félagið of mikið.
„Félagið vill hæfileikaríka leikmenn með viðráðanlegan launapakka. Það er það sem við munum leitast eftir.“
Næsti leikur Tottenham er á Nýársdag gegn Aston Villa á heimavelli.