Eric Cantona, goðsögn Manchester United, hefur hótað að hætta að styðja félagið ef einhvern tímann verður ákveðið að breyta nafni Old Trafford.
Old Trafford er heimavöllur Man Utd en lið um alla Evrópu hafa verið í því að breyta vallarnafninu vegna styrktaraðila.
Nefna má West Ham og Arsenal á Englandi en það síðarnefnda lék lengi á sögufrægum Highbury áður en flugfélagið Emirates kom til sögunnar.
Cantona vill ekki sjá það sama gerast í Manchester og er þakklátur fyrir það að sum félög haldi í ákveðin gildi.
,,Við vorum að ræða um mína uppáhalds velli en í dag eru þeir allir kallaðir Emirates eða Allianz,“ sagði Cantona.
,,Þessir vellir hafa tapað sálinni og sögunni, lið eins og West Ham og Arsenal. Ég spilaði á gömlu völlunum þeirra, Highbury og Upton Park.“
,,Ég ræddi við nokkra stuðningsmenn Arsenal og þeir hata nýju vellina. Sem betur fer er Old Trafford ennþá Old Trafford og Anfield er enn Anfield.“
,,Ef Manchester United ákveður einn daginn að breyta nafni vallarins þá, því miður er ég ekki stuðningsmaður félagsins. Ég mun segja skilið við fótboltann að eilífu.“