Arnar Þór Viðarsson og íslenska karlalandsliðið setja markið á annað sæti undanriðils síns fyrir Evrópumótið 2024. Þetta segir landsliðsþjálfarinn í sjónvarpsþætti 433.is.
Undankeppnin hefst í mars. Ísland er í riðli með Portúgal, Slóvakíu, Bosníu, Lúxemborg og Liechtenstein. Tvö lið fara beint upp úr riðli sínum.
„Við erum mjög ánægðir með dráttinn. Það væri dapurlegt af mér að sitja hér og segjast ekki vera ánægður með hann. Við fengum Bosníu úr öðrum styrkleikaflokki, sem er það sem við vildum,“ segir Arnar.
„Slóvakía, Bosnía og Ísland eru þau þrjú lið sem munu bejast um annað sæti held ég. Portúgal er með gífurlega sterkt lið. Það eru nokkur lið sem geta tekið stig af hvoru öðru þannig að tapa einum leik verður ekki dauðadómur.“
Arnar líkir íslenska landsliðinu í dag við það sem var nálægt því að komast á HM 2014.
„Við setjum markið á að berjast um annað sætið. Við erum kannski á svipuðum stað og þegar við komumst næstum því á fyrsta mótið og töpuðum fyrir Króatíu í umspilsleikjunum.
Það er fullt af jákvæðum hlutum sem hafa komið út úr 2022 og ef við tökum þau skref sem ég tel okkur geta 2023 ættum við að geta náð öðru sætinu.“