Georgina Rodriguez, kærasta og barnsmóðir Cristiano Ronaldo, segir að árið sem er að líða sé það erfiðasta í lífi hennar hingað til.
Ár Georginu og Ronaldo var viðburðaríkt. Í vor eignuðust þau tvíbura en annað barnanna lést í fæðingu. Þá hefur Ronaldo átt erfitt uppdráttar utan vallar, en samningi hans við Manchester United var rift í síðasta mánuði eftir að kappinn fór í umdeilt viðtal við Piers Morgan.
„Þetta hefur verið erfiðasta ár lífs míns. Mín hamingjusamasta stund var líka sú sorglegasta,“ segir Georgina um fæðingu tvíburana í vor.
„Þetta er eitthvað sem mun fylgja mér að eilífu. Ég mun aldrei gleyma þessu.“
Fyrir áttu Ronaldo og Georgina fimm ára dóttur og þá búa þrjú önnur börn leikmannsins einnig á heimili þeirra.
„Börnin mín eru það mikilvægasta sem ég á og allt sem ég geri er fyrir þau,“ segir Georgina.