Grétar Rafn Steinsson tók í upphafi árs til starfa hjá KSÍ sem tæknilegur ráðgjafi knattspyrnusviðs. Grétar var ráðinn til starfa í hálft ár áður en hann hélt til Tottenham í ensku úrvalsdeildinni.
Þar hefur Grétar mikla ábyrgð og fær mikla virðingu og lof fyrir starf sitt. Eitt af því sem Grétar gerði undir lok tímans hjá KSí var að vinna skýrslu um starfið og hvaða tól og tæki KSÍ hefur til að bæta hlutina hjá sér. Fréttablaðið hefur skýrsluna í sínum höndum og birti hluta hennar í dag.
Í upphafi skýrslunnar skrifar Grétar um hvað skal gera til að byggja upp. „Ég legg alltaf ríka áherslu á grunninn, þar nærðu að byggja til framtíðar og allir sem vinna í verkefninu sjá breytingar og bætingar. Þegar allir vita hver grunnurinn er þá er auðveldara að leita þangað aftur þegar mistök hafa átt sér stað. Það tekur tíma að byggja upp gott hús og mikilvægt að skella ekki þakplötum og stromp á þegar við erum á byrjunarreit.“
Hluti af því sem Grétar skrifar er um ástandið sem skapaðist hjá A-landsliði karla þegar menn hættu eða voru settir til hliðar árið 2021.
„Partur af starfinu hjá KSÍ var að kynna nýjar leiðir og koma með hugmyndir sem gætu nýst þeirra vinnu. Squad depth og succession plan er stór hluti af skipulagningu og hefur áhrif á hvaða stefna er tekin,“ skrifar Grétar og bendir á hvað það getur reynst mikilvægt.“
„Nýlega sáum við mikilvægi þess að plana til lengri tíma og lið eiga að draga lærdóm af því sem gerðist hjá A landsliði karla. Að þurfa að fara úr því að vera eitt elsta karlalandslið Evrópu í það að vera eitt af þeim yngstu á gífurlega stuttum tíma hefur mjög mikil áhrif á skammtíma úrslit og býr til neikvætt umhverfi.
Væntingastjórnun verður erfið og skoðanir ekki lengur byggðar á þekkingu og reynslu heldur verða skoðanir persónulegar og dýpt umræðu verður engin. Það er mikilvægt að hafa alltaf auga á því sem getur gerst næst og það eru bara til ákveðið margir leikmenn. Bæði karla og kvenna landslið okkar eru með ung A landslið, það gerir það að
verkum að val í A landslið mun hafa áhrif á val hjá öllum landsliðum fyrir neðan. Til að hafa auga á “what if?” scenarios er mikilvægt að spyrja réttra spurninga þegar það er ró,“ segir Grétar.