Argentíska karlalandsliðið var keyrt um Buenos Aires í opinni rútu í gær. Þar fengu heimamenn tækifæri til að hylla hetjur sínar sem tryggðu sér heimsmeistaratitilinn á sunnudag eftir sigur á Frökkum í úrslitaleik. Fagnaðarlætin gengu þó ekki áfallalaust fyrir sig.
Rútuferðin hófst klukkan 15 en var hætt snemma af öryggisástæðum. Var það eftir að aðdáendur hoppuðu af brú og ofan á rútuna þar sem Lionel Messi og félagar voru.
Einn maður hitti ekki á rútuna og féll alla leið til jarðar, án þess þó að slasast alvarlega af því sem virtist.
Annar maður, 24 ára gamall, slapp hins vegar ekki eins vel eftir að hann féll í gegnum þak sem hann hafði hoppað á í fagnaðarlátunum. Hann meiddist illa á höfði og lést síðar af sárum sínum á sjúkrahúsi.
Þá er fimm ára drengur þungt haldinn aftir að marmari féll á hann á San Martin-torginu. Hann er í dái og berst fyrir lífi sínu á sjúkrahúsi.
Ljóst er að margir fóru yfir strikið í fagnaðarlátunum í Buenos Aires í gær. Það rataði til að mynda í fréttir að lögreglubíl hafi verið stolið.