Lionel Scaloni, landsliðsþjálfari Argentínu, hefði elskað fátt meira en að sjá Diego Maradona í stúkunni um helgina er liðið vann HM.
Maradona er einn besti ef ekki besti leikmaður í sögu Argentínu en hann berst um þann titil við Lionel Messi.
Maradona lést fyrir tveimur árum síðan og var því ekki á staðnum í Katar er Argentína vann Frakkland í vítakeppni.
Scaloni áttaði sig seint á því að Maradona væri ekki á staðnum en vonar innilega að hann hafi notið þess að sjá liðið fagna titlinum fræga.
,,Þið fenguð mig til að átta mig á því að hann er ekki hérna, annars væri ég viss um að hann væri hér,“ sagði Scaloni.
,,Sem betur fer náðum við að lyfta bikarnum, eitthvað sem okkur hefur dreymt um í svo langan tíma, við erum svo ástríðufull þjóð.“
,,Ég vona að hann hafi notið þess að ofan. Ef hann væri hér hefði hann notið þess svo mikið, hann hefði verið fyrstur til að hlaupa inn á völlinn.“
,,Ég vildi óska þess að hann væri hér til að njóta augnabliksins.“