Það er endurkomuleið fyrir Albert Guðmundsson í íslenska landsliðið ef kappinn breytir um hugarfar. Þetta segir Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari í sjónvarpsþætti 433.is.
Albert var ekki valinn í landsliðshópinn fyrir verkefni í september og sagði Arnar það vera vegna hugarfars leikmannsins.
Margir hafa gagnrýnt Arnar fyrir þetta og bent á að Albert sé einn allra besti leikmaður Íslands í dag.
„Hurðin er aldrei lokuð hjá mér. Það væri mjög dapurlegt af mér,“ segir Arnar um hugsanlega endurkomuleið Alberts.
„Eins og ég sagði fyrir septembergluggann var ég mjög óánægður með hans hugarfar í júníglugganum. Ég hef rætt það við Albert og hann hefur sagt sína skoðun og ég hef alveg skilning á henni. En það sem er mikilvægast fyrir mig sem þjálfara er hugarfarið. Albert er einn af okkar hæfileikaríkustu leikmönnum. Um leið og hugarfarið fylgir er að sjálfsögðu hurðin opin.“
Arnar bendir þó á að liðið og hópurinn þurfi að vera í forgangi.
„Það er enginn stærri en liðið.“