David Moyes stjóri West Ham horfir til Aaron Wan-Bissaka hjá Manchester United í leit að styrkingu í vörn sína.
Það er Manchester Evening News sem greinir frá þessu, en Thilo Kehrer hefur ekki heillað í stöðu hægri bakvarðar hjá West Ham undanfarið og er talið að Moyes vilji nýjan mann.
Hinn 25 ára gamli Wan-Bissaka hefur verið á mála hjá United síðan 2019 en hann kom frá Crystal Palace fyrir hátt í 50 milljónir punda.
Hann hefur engan veginn staðið undir væntingum og gæti farið. Samningur hans á Old Trafford rennur út eftir næstu leiktíð.
Það er talið að Palace væri til í að taka Wan-Bissaka aftur en bara fyrir brotabrot af því sem félagið seldi United hann á fyrir þremur og hálfu ári síðan.