Jack Grealish og kærasta hans Sasha Attwood hafa notið lífsins í fríi í New York undanfarna daga.
Grealish hvílir lúin bein eftir að hafa tekið þátt í Heimsmeistaramótinu í Katar með enska landsliðinu, en liðið datt úr leik í 8-liða úrslitum af hendi Frakka.
Kappinn er leikmaður Manchester City á Englandi. Enska úrvalsdeildin fer af stað á nýjan leik annan í jólum.
Gralish og Attwood skelltu sér því til New York. Þar skoða þau meðal annars staði sem komu við sögu í jólamyndinni Home Alone 2.
Í myndinni er strákruinn Kevin McCallister týndur í stórborginni. Grealish er mikill aðdáandi.
„Þið sem þekkið mig vita hversu mikið ég elska jólin og Home Alone,“ skrifar leikmaðurinn á Instagram.
„Ég er svo ánægður yfir því að geta komið til New York yfir jólatímann og farið allt þangað sem Kevin fór.“
Grealish fór á Plaza-hótelið, þar sem Kevin dvaldi í myndinni. Þá skellti hann sér í Central Park og að skautasvellinu þar sem ræningjarnir Harry og Marv áttuðu sig á því að Kevin væri staddur í New York. Grealish og frú fóru einnig að jólatrénu í Rockefeller Center.
Hér að neðan má sjá myndir sem Grealish hefur birt frá ferðinni.